sunnudagur, desember 16, 2007

dónaljóð ;D

Kertasníkir, Giljagaur,
Gáttaþefur, Stúfur.
Konu sína giljar gaur
gáttir opnar stúfur.

Benedikt Erlingsson

Prófin búin...loksins. Tók stærðfræðina með stæl á síðasta föstudag :D Núna tekur við vinna fram að jólum...reyndar frí á morgun - hitta maju ;D

Best að fara að sofa:




vann bubbles í fimmta skipti núna áðan :D

fimmtudagur, desember 13, 2007

mhmmm....

síðasta prófið á morgun

brjálað veður í nótt

þingfundur á alþingi fram eftir nóttu

ég elska lífið

lífið elskar mig -vona ég

Á laugardaginn hefst svo jólavinna fátæka námsmannsins. Vinna alla daga fram að jólum, fyrir utan næsta mánudag :D

Maja að koma í bæinn (ekki bæinn með "j-i", því það er ekki til)

afmæli mömmu á laugardaginn

skemmtilegt blogg?

Myndin tengist á engan veg þessari færslu. (Ljósmynd: Althingi.is/þingforsetar)

mánudagur, desember 10, 2007

Minning um vin

Góður vinur minn lést í gær. Við höfum ekki þekkst lengi...í rúmlega hálft ár, en hans verður sárt saknað. Hann hefur séð mér fyrir nýjustu fréttum frá Ísafirði síðan ég flutti.

COSMIC...þín verður sárt saknað. Það er þó nokkur huggun í því að búið er að opna minningar síðu á léninu www.123.is/cosmic. Það mun aldrei neitt koma í þinn stað í hjarta voru og ég veit að margir eru mér sama sinnis
En yfir í minna alvarleg mál...ég vill þakka öllum sem styttu mér stundir á Ísafirði fyrir skemmtunina :D

föstudagur, desember 07, 2007

Ísafjörður...

hér kem ég...


Í faðmi fjalla blárra

miðvikudagur, desember 05, 2007

Ég vissi það alltaf!


Gömlu bekkjarsystkini....ég vissi þetta alltaf :D við erum langbest, allavega miðað við frammistöðu okkar í Pisa-könnuninni í fyrra :D

ég sakna ykkar alveg ógurlega mikið :S

Hver man ekki eftir hinni ógleymanlegu ferð yfir Þjófaskörð?

þriðjudagur, desember 04, 2007

Ert þú á bólakafi í prófum?

Tilkynning:

Ertu á fullu í prófum? Áttu erfitt með að halda einbeitingunni við lesturinn? Leikjanet í samstarfi við Í. Pálmason ltd. kynnir nýjan tölvuleik sem hjálpar þér við að ná einbeitingunni aftur til að geta lesið nokkrar blaðsíður í viðbót.

BUBBLES

Já, eða nei annars...það er ekki sniðugt að fara í bubbles þegar maður er í prófum...ef maður byrjar þá er maður í honum alveg þangað til að maður vinnur hann...allavega ég :S Þetta er svona alveg eins og myspace...maður kíkir á einn prófíl, og svo man maður ekki eftir sjálfum sér fyrr en eftir hálftíma...hræðilegt :c

Fyrsta prófið er loksins búið :D Líffræðin...tók hana með stæl, eða vonandi yfir 7 :S




föstudagur, nóvember 30, 2007

Nú er allt breytt vegna þín...

Sit hér einmana
fölur og fár
sit hér leiður og lítill[...]


Hver man ekki eftir þessu broti úr þekktu sönglagi sem leikarar morrans sömdu hérna um árið ;D


Jæja, jólin nálgast...síðasti skóladagurinn minn var í dag og framundan eru fjögur próf, þar af tvö stúdentspróf :D Ég hlakka svo til að fara í þessi próf...það er svo gaman að vera í prófum :D allavega svona í hófi.


En í dag er þrítugasti nóvember sem þýðir að á morgun er 1. desember Fullveldisdagurinn og þá má byrja að spila jólalög og þá má byrja að skreyta...allavega á mínu heimili...reyndar tók ég smá forskot á sæluna áðan og byrjaði að setja jólaseríur í gluggana.


En í tilefni af því að það má byrja að spila jólalög ætla ég að benda ykkur á ótrúlega fallegt lag sem er að finna á 100 jólalög disknum. Það er lagið Ó helga nótt sem Egill Ólafsson syngur ásamt kórum:


Ó, HELGA NÓTT
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáar þjóðir
því guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné
nú fagna himins englar,
frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu hans við stöndum hræð og klökk
og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.

Texti: Sigurður Björnsson


Ég las í gær skemmtilegustu bók sem ég hef lesið lengi. Það er bókin Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson. Hún er mjög spennandi og maður getur ekki rifið sig frá henni fyrr en maður klárar hana :D Að mínu mati er Viktor einn af efnilegustu íslensku rithöfundunum.

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Góðan daginn...guð er klukkan orðin svona margt:S

Sumir dyggir lesendur þessa vefs halda líklega að ég hafi lagst í bloggdvala...en þar skjátlast þeim:D ég hef nefnilega verið að reyna fyrir mér á nýjum slóðum... www.isakp.blog.is

Já, en ég veit ekkert inn á hvort þeirra ég kem til með að blogga á í framtíðinni:D

En ég er s.s. búinn að vera í brjáluðum prófum síðustu vikuna...átti að vera í fimm prófum þrjá síðustu daga vikunnar en við fengum að flytja eitt þeirra þangað til í fyrrmálið :D sem betur fer enda veit ég ekki hvernig ég hefði lifað þetta af :D

En framundan eru svo lokaprófin :D

Ég þarf að taka fjögur lokapróf og þar af tvö stúdents, í líffræði og landafræði...sem ég á vonandi eftir að rúlla upp ;D Síðan eru það enska og stærðfræði...sem verður fróðlegt að sjá hvernig endar :D

en ég held að ég fari nú bara að sofa núna. Góða nótt lesendur ;D

föstudagur, september 07, 2007

jólin eru á næsta LEYTI

Vá hvað ég er stórborgarlegur :D ég fór í fyrsta skiptið í gær í strætó með nýja strætókortinu mínu :D
En nóg um það. Í dag hljómuðu í eyrum Ísfirðinga fréttir um að vinir okkar og frændur í danska bænum Hróars-keldu hefðu slitið vinabæjar sambandi við Ísafjörð, hvað verður um jólatréið sem þeir hafa alltaf gefið okkur, verður ekkert jólatré kannski :S Hvað verður þá um torgsöluna, niðurtalninguna og kakó og lummur úr tónlistarfélagsgámnum.
Ég ætla rétt að vona það að þessi skemmtilegi siður verði ekki lagður niður, þrátt fyrir að jólatréið verði ekki danskt þessi jólin :(
Ég hef því ákveðið að taka mig til og auglýsi því eftir fyrir hönd Ísfirðinga eftir bæ sem vill gefa okkur jólatré svo við getum haldið áfram þessum gamla sið.

Skemmtileg stemming...ekki satt?

miðvikudagur, september 05, 2007

Símaauglýsingin

Vá, ég hef ekki verið jafn hneykslaður í nokkurn tíma. Þetta er bara fáránlegt að stórfyrirtæki eins og síminn noti efni biblíunnar til að særa fólk, því það hefur það einmitt verið að gera. Auk þess finnst mér að fyrst að spaugstofan mátti ekki sýna þetta í sínum þætti fyrir nokkrum árum, hvers vegna má síminn gera þetta. Jón Gnarr hugmyndasmiður auglýsingarinnar hefur aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, og þetta gerði alveg út um hann. Eftir þessa auglýsingu hef ég misst allt álit mitt á honum.

En nóg um það. Það gengur allt frábærlega hjá mér í skólanum, mínum frábæra MS. Það eru frábærir kennarar og skemmtilegir krakkar, en það var nú samt svolítið erfitt fyrstu dagana. En þetta er rosalega mikil vinna, heimavinna upp á hvern einasta dag, sem er samt alveg ágætt. Ég er búinn að fara í tvö próf og skila einu verkefni, og svona til að monta mig aðeins, þá var ég með hæstu einkunnir í mínum bekk í þeim öllum :D Var með 9,5 fyrir lífsleikniverkefni, 8,5 í ENSKU (já þið heyrið rétt gömlu samnemendur í ensku hraðferð) og 7,5 í stærðfræði :D


En mig langar að skila kveðju til allra fyrir vestan...ég sakna ykkar svo mikið. Ég verð að fara að skella mér, ef ég fæ eitthvað gott far kannski að maður skelli sér. Þ.e. ef ég verð ekki að vinna í Hagkaup...


þangað til næst...ekkert stress, verið hress, bless :D



Þessi mynd er ekta :D tekin í Brautarholti við Skutulsfjörð :D

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Stórborgarbúinn

Eins og sönnum stórborgarbúa sæmir hef ég ákveðið að notast í meiri mæli við almenningssamgangnakerfið, sem að mínu mati er alveg stórgott, þó svo að það mætti fjölga ferðum, þó svo að auðvitað sé spurning um hvort að markaður sé fyrir það.

En fyrstu kynni mín af strætisvögnunum voru ekki alveg svo góð. Ég var að fara frá heimili mínu á Kópavogsvöll á landsmótið sem var haldið í Kópavogi. Ég náttúrlega algjör sveitalubbi, en ég vissi nú samt hvað skiptimiði var, en ég áttaði mig ekki fyrr en of seint hvernig ætti að nota hann, enda hef aldrei tekið strætó áður í stórborg. Þegar ég var að fara út úr strætónum ætlaði ég að biðja vagnstjórann um skiptimiða, en svarið sem ég fékk frá þessum gamalgróna starfsmanns Strætós var að maður ætti að biðja um miðann þegar maður borgaði. Ég bað náttúrulega manninn vel að lifa, en sagði um leið og ég gekk út við hann nánæst orðrétt:

,,Það er nú ekkert verið að beygja reglurnar fyrir þá sem eru að fara í fyrsta skipti með strætó, og mér þykir það ekki skrýtið að nýtt fólk byrji ekki að taka strætó fyrst að þjónustan væri svona."

Og þar við sat, ég gekk í burt frá manninum sem sat við sinn keip áfram eins og ekkert væri. Það var nú kannski ekki skrýtið að þessi maður lyfti ekki brúnum yfir þessum viðbrögðum mínum, enda leit hann út fyrir að hafa unnið hjá þessu fyrirtæki óralengi og ég gæti best trúað að hann væri gróinn fastur við stólinn.

En ég er ekkert að velta mér uppúr þessu og held ótrauður áfram að taka strætó þess á milli sem ég ferðast á hjólinu mínu hérna um bæinn :D

En ég er að spá, ætti ég að skipta og færa mig yfir á Mogga bloggið, það er svolítið freistandi að geta skrifað þar, og komist í moggann ef maður skrifar vel :D Deilið ykkar skoðun á því.

mánudagur, júlí 09, 2007

Allta að fara til andskotans!

Já það eru sko orð með sönnu, því að með því að minnka kvótann á næsta fiskveiðiári var rekið dómshögg á byggðirnar á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, á Suðurnesjum og á Austurlandi. Hvað á fólkið að gera sem missir vinnuna, varla finnur það sér nýja vinnu fyrir vestan. Eftir nokkur ár verða Vestfirðir líklega orðnir að eyðibyggð, enda er ekki lengur þjóðhagslega hagkvæmt að reka þá eins og hefur nú þegar skýrt komið fram í fjölmiðlum. Það er þó líklega sjávarplássunum að þakka hvar þjóðin er stödd í dag, með ríkari þjóðum heimsins.

En fólkið sem áður vann í fiskinum, hvað á það að fara að gera. Varla fær það vinnu hjá Ísafjarðarbæ, í þessum störfum sem voru auglýst þar og krefjast öll háskólamenntunar. Samt var bæjarstjórnin að hreykja sig af þessum störfum. Það vantaði kennara og þar fram eftir götunum, en ég held að það hafi alveg sýnt sig að það hlaupa ekki allir úr frystihúsunum í kennslu.

En mig langar að senda Jónu Ben vinkonu minni baráttukveðjur, það var leiðinlegt að geta ekki hitt þig á Úlfljótsvatni þegar ég fór þangað í heimsókn. En skátar, takk fyrir æðislega skemmtun á laugardagskvöldið ;D Og Jógvan þú varst góður :Þ

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Dagbókarfærsla væntanleg !!!

A morgun er von a nýrri dagbókarfærslu og vonandi bíða þessir þrír óþreygjufullir eftir þessari langþráðu færslu...

En vel á minnst, hvað er þetta 11. ágúst? Ég bíð spenntur...

fimmtudagur, júní 21, 2007

Meira af mér :D

Mér til mikillar ánægju opnaði ég netumsóknina mína um framhaldsskóla til að sjá hvernig henni liði... og ég fékk þær upplýsingar að ég er kominn inn í Menntaskólann við Sund...


Síðan fór ég í gærkveldi að skoða umhverfið í kringum skólann og komst að því að það tekur 5 mínútur að hjóla þangað, en samt er húsnæðið og umhverfi skólans ekki það flottasta sem ég hef séð :s en húsnæðisvandi er búinn að vera stærsta vandamál skólans enda deilir hann húsnæði með Vogaskóla.



En eins og þeir sem eru vel læsir og eru góðir í lesskilningi sáu, þá hjólaði ég á nýja hjólinu mínu í skólann. Það vildi þannig til að það var gámasala á hjólum í versluninni GÁP á hjólum af gerðinni Mongoose sem eru víst mjög góð hjól. Það kom sér sannarlega vel að hafa hlotið viðurkenningu Ísfirðingafélagsins á skólaslitum Grunnskólans á Ísafirði, enda dugði peningurinn fyrir hjólinu, lási, brettum og auðvitað hjálmi. Hefur þessi gjöf komið sér mjög vel fyrir mig, enda er ég búinn að nota hjólið óspart, fer hjólandi í vinnuna á morgnana, sem tekur mig 4 mínútur og svo er ég alltaf að skreppa eitthvað. Það er líka svo gott við það að búa hérna í Reykjavík það eru hjólastígar út um allt og maður getur hjólað hvert sem er og maður er laus við allar umferðarteppur og allt. Svo auðvitað mengar maður svo miklu minna ef maður notar hjólið heldu en að keyra hvert sem maður fer.






Síðan fór ég á sautjánda júní í Hafnarfjörð á tónleika, svona hefðbundna sautjánda júní tónleika. Þar komu fram nokkrar hljómsveitir og þar á meðal hljómsveit sem er í miklu uppáhaldi hjá mér eftir heimsókn þeirra í Grunnskólann fyrir tveim árum. Þarna er ég auðvitað að tala um stórdúettinn Hundur í óskilum. Ég elska þá. Þeir eru svo skemmtilegir á sviði. Þar voru náttúrulega samankomnir allir Hafnfirðingar og nýhafnfirðingurinn Helena bekkjarsystir mín lét ekki sitt eftir liggja. Það var svo gaman að hitta hana.

Maja og Andrea takk fyrir skemmtileg samtöl, það var gaman að heyra í ykkur :D

Ef þið Ísfirðingar vinir mínir eigið leið í bæinn einhvern tímann þá verðið þið að athuga að ég er oft í stemmingu til að kíkja á kaffó...

En tíundu bekkingar... allavega þið sem eruð búin að fá svar um hvaða skóla þið farið í, í hvaða skóla farið þið? Setjið það í skoðanir :D

En við sjáumst, skjáumst eða jafnvel bara heyrumst...

Ykkar Ísak :D

þriðjudagur, júní 19, 2007

Flóttamaður í borg óttans

Núna er maður svona nokkurn veginn búinn að koma sér fyrir hérna á nýja heimilinu. Það er svolítið skrýtið að búa í Reykjavík, því þegar ég vakna á morgnana finnst mér eins og ég sé í fríi í Reykjavík, fríi frá Ísafirði. Enda hefur það aldrei verið annað á döfinni hjá mér en að koma aftur vestur, vonandi bara sem fyrst og vonandi endanlega. En eins og atvinnuástandi í fjórðungnum er núna er það ekki fýsilegasti kosturinn í stöðunni, því að þó svo að fyrir rúmum ellefu hundruð árum hafi öll vötn legið til Dýrafjarðar, svo ég leyfi mér að vitna í Véstein Vésteinsson. Það er svo sannarlega sárt að sjá þetta gerast. En vonandi er ekki of seint að grípa í taumana þó svo að flest bendi til þess.
Það kom mér nú samt mjög mikið á óvart hvað það var léttara að kveðja bæinn því ég hafði ímyndað mér að það ætti eftir að verða óbærilegt og ég ætti eftir að lifa margar andvökunætur, grátandi yfir hlutkesti mínu og fjölskyldu minnar út í lífið. En ég leit á þetta sem tækifæri til að kynnast nýju fólki og læra eitthvað nýtt. Það var samt átakanlegt þegar ég fór í síðasta skiptið göngutúr í bæinn til að kveðja fólkið sem fyrir bar, og fara í síðasta skiptið, allavega í bili og stimpla mig út úr samkaup.
Leiðin suður gekk þó ekki átakalaust fyrir sig. Það var eins og landvættir okkar Vestfirðinga hefðu ekki vilja missa þetta fólk sem var að flytjast hreppaflutningum úr fjórðungnum. Á niður leið niður af Þorskafjarðarheiði stöðvuðu þeir för okkar, það sprakk dekk. Það var því svolítið táknrænt að það skildi springa á nákvæmlega þessum stað enda ekki langt í Gilsfjörðinn sem markar skil á milli Vesturlands og Vestfjarða og vorum við því alveg að renna burt hinsta sinn frá kjálkanum sem við öll unnum svo mikið. Enda hefðum við fyrir tíu árum, vel stæð fjölskyldan og fyrir vinnurnar á heimilinu í góðum vinnum, ekki trúað því að á þessum degi værum við að flytjast burt.
Það var svo daginn eftir að ég kom til borgarinnar alkominn að ég hóf störf hjá stórfyrirtæki, þangað sem að hver landsmaður að meðaltali leggur leið sína tvisvar í mánuði. Það er að segja í verslunina þar sem að Íslendingum finnst skemmtilegast að versla. Þar hóf ég störf í matvöru og á kassa, en staldraði stutt við í þessum deildum. Enda eftir að hafa sýnt hvað í mér býr og kunnáttu mína á verslunum fékk ég fljótt stöðuhækkun og er núna orðin Allýin í Hagkaup (Samkaupsgrín), þ.e.a.s. í grænmetinu. Svo alltaf á kvöldin þarf ég að loka salatbarnum og þrífa hann, sem er alveg ágætt, enda er þetta vel launað. Ég vinn á tólf tíma vöktum frá klukkan 8 til rúmlega 20, en samt er ég eiginlega búinn að prófa flestar deildir matvörunnar í Skeifunni. Þ.e. ég er eiginlega svokölluð deildahóra, eða er í því að leysa af í öðrum deildum ef þarf.
Fyrir utan vinnuna hef ég ekki gert neitt mikið nema aðallega sofa, enda tekur virkilega á að vinna á tólf tíma vöktum næstum alla daga.

En Elma og Borghild þið verðið að fyrirgefa að ég skildi svíkja ykkur á þjóðhátíðardaginn sjálfan, en síminn minn er í viðgerð og ég er búinn að vera farsímalaus frá því að ég kom. En vonandi getum við bara hist einhvern tíman seinna á kaffihúsi. En þetta er kannski engin afsökun því að ég hefði náttúrulega getað reynt að ná sambandi við ykkur með öðrum hætti. En þið verðið að fyrirgefa.
Atli í féló, hérna eru smá skilaboð til þín. Þú verður að fyrirgefa að ég kom ekki að kveðja þig, verða að hringja í ykkur við tækifæri í frístund. Það var þannig að ég var búinn að vera að bíða eftir ykkur og þegar þeir komu þá fórst þú strax eitthvað svo ég ákvað að kveðja bara hina því ég þurfti að fara í vinnu.
En krakkar þið vitið ekki hvað ég sakna ykkar mikið. Ég vænti þess að fá fullt af skoðunum við þessu bloggi og svör við þessum spurningum:
Eru fjöllin enn á sínum stað?
Bragðast sælurnar jafn vel og venjulega?
Bakar gamla bakaríið ennþá Ísafjarðar-kringlur?

Vonandi á ég eftir að vera duglegur við að blogga á þessari “nýju” síðu minni og vonandi haldið þið í vonina um það og haldi áfram að heimsækja hana. Þangað til næst...

Ykkar Ísak
-flóttamaður og deildahóra

sunnudagur, mars 18, 2007

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs

Jæja, kallinn bara ekkert búinn að vera að standa sig í þessu...og margir alltaf að minna hann á það :s Ég hef ákveðið að gera upp fyrsta ársfjórðunginn með þessu bloggi og ætla að reyna að standa mig betur í þessu...

Janúar
Jújú, árið byrjaði með sínum vanagang, þó svo að skotglaðir Ísfirðingar hafi ekki verið jafn skotglaðir og fyrri ár. Á fyrsta degi þorra var þorra blótað af tíundubekkingum grunnskólans á Ísafirði, kennurum og aðstandendum.



Febrúar
Vinna, vinna, vinna...Samkaup minn ástkæri vinnustaður átti hug og hjarta mitt þennan mánuðinn og ég man ekki eftir neinu stórvægilegu, nema auðvitað söngkeppni vestfjarða sem haldin var á Hólmavík, þar sem Sigurður okkar Erling kom sá og sigraði og ástirnar mínar Sunna og Agnes urðu í þriðja sæti.

Mars
Fyrstu helgina í mars hélt ég ásamt mínu fríða föruneyti burt úr bænum. Ferðinni var heitið til Reykjavíkur þar sem Sigurður sigurvegari Söngkeppni Vestfjarða átti að taka þátt í Söngkeppni Samfés...það er náttúrulega ekki frá sögu úr færandi að Siggi VANN ekki. Sömu helgi fékk ég einnig að sjá í fyrsta skipti með berum augum framtíðarheimili mitt (allavega næsta sumar, hver veit hvað gerist eftir það :s ja, ekki veit ég það). Síðan gerðist sá stórmerkilegi atburður að Félagsmiðstöð Ísafjarðar fékk loksins framtíðarheimili og var hún opnuð með pompi og prakt, og hefur hún verið óspart notuð af grunnskólanemum, þósvo að nokkurrar óánægju gæti með veru Dægrardvalar, lengdar viðverubarna á yngsta stigi skólans, en hún samnýtir húsnæðið með Félagsmiðstöðinni og heftir starfsemi hennar heilmikið. [það sést ekki greinilega hvar ég stend í þessu máli, allavega ekki miðað við það sem stendur hér að framan] Svo hef ég bara verið að vinna og vinna og vinna í mínum yndislega vinnustað Samkaup.

Svo er það auðvitað árshátíðin G.Í. sem var á fimmtudag og föstudag í síðustu viku, þar var auðvitað mjög skemmtilegt, og persónulega þótti mér flottast hvernig atriðin hjá 7. bekk voru inn á milli atriða hjá hinum. Samnemendur takk fyrir skemmtunina. Að lokinni seinustu skemmtuninni á föstudagskvöldið var svo hið margrómaða árshátíðarball, sem var að mér fannst mjög skemmtilegt, en hefði mátt vera lengra.

Svo er nú skemmst frá því að segja að ég kann að taka upp í hljóðverinu í nýju félagsmiðstöðinni. Gaman af því. Fór á námskeið ásamt fleirum hjá honum Hálfdáni sem var í hljómsveitinni Nois ef ég man rétt. Ef þig vantar að láta taka þig upp þá tek ég 3000 kall á tímann, síminn minn er 8473901 ;D

Það er skrýtið að vera að fara að flytja eftir að hafa búið alla ævi á sama stað. Ég hélt að þegar ég flutti úr Móholtinu að ég myndi aldrei lifa það af en ég tóri enn, svo ég hlýt að spjara mig í Reykjavík, þó svo ég ætli að reyna að vera fastagestur á Ísafirði :D (þið losnið ekki svona auðveldlega við mig, öll frí og allar helgar :D).

Að lokum vil ég votta þeim samúð mína sem um sárt eiga að binda vegna sjóslysins aðfaranótt miðvikudagsins síðastliðinn. Það er ótrúlegt hvað svona atburður þjappar manni saman og það sýnir manni sannarlega hvað það er gott að búa í svona litlu samfélagi eins og Ísafjörður er.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Minning um Þórey Guðmundsdóttur

Ég lét þessa minningu um Þóreyju inn á minningasíðuna hennar www.fif.fi/torey þegar ár var liðið frá því að hún lést í hræðilegu slysi á Hnífsdalsvegi 19. janúar 2006:

Þá er liðið heilt ár síðan leiðir okkar skildust elsku Þórey...ég trúi því ekki hvað þessi tími hefur verið fljótur að líða. Það hefur ekki liðið sá dagur án þess að ég hugsi um þig, hversu falleg og góð þú hafir verið og ég hef verið að reyna að læra af þér. Eftir að ég byrjaði að vinna í Samkaup hef ég reynt að vera alltaf brosandi eins og þú varst alltaf. Brosandi og svo ánægð, sama hvað gekk á.

Ég man eftir síðasta deginum sem ég hitti þig. Það var á þriðjudeginum fyrir slysið. Ég var á leiðinni í skólann, Þórir hafði fest bílinn sinn í Fjarðarstrætinu og þú varst sest undir stýri og hann var að ýta en það keyrði alveg fullt af fólki framhjá ykkur og stoppaði ekki einu sinni til að hjálpa. Þórir kallaði í mig þegar ég var að koma framhjá ykkur og ég hjálpaði ykkur að ýta. Ég man eftir því þegar við vorum búin að losa bílinn og þið buðuð mér að skutla mér í skólann og þú brostir svo fallega til mín. Ég man alltaf eftir þessu brosi þínu.

Síðan daginn sem slysið varð þá frétti ég niðri í bæ að það hefði orðið slys á leiðinni út í Hnífsdal. Ég vonaði svo heitt og innilega að það hefði ekkert alvarlegt komið fyrir. Síðan þegar ég frétti að það hefði verið mjög alvarlegt þá vonaði ég að það hefði ekki verið neinn sem ég þekkti. Þegar ég var síðan á leiðinni heim var pabbi að koma úr útkallinu og hann tók mig uppí. Á leiðinni sagði hann mér að það hefði orðið banaslys og hann var mjög alvarlegur. Þegar ég kom heim þá fór pabbi að tala við mömmu í eldhúsinu og ég settist við tölvuna og ég fór að hlusta á þau og pabbi sagði að það hafðir verið þú sem hefir dáið, þá fór mamma að gráta. Ég fór að tárast og skildi ekki afhverju stelpan með fallega brosið hafði verið tekin svona fljótt frá okkur.

Eins og ég sagði hérna áður þá hefur ekki liðið sá dagur að ég hugsi ekki um slysið. Í hvert skipti sem ég hugsa um þig dettur mér alltaf í hug þessi lagbútur......when I think of angelsI think of you...Megi minning Þóreyjar Guðmundsdóttur lifa í hjörtum okkar um ókomna framtíð. Þórey, ég mun alltaf muna eftir brosinu þínu, sem þú brostir til mín síðasta skiptið sem ég hitti þig...

Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
- Ísak Pálmason 19/01/07 07:38