fimmtudagur, júlí 20, 2006

Tími á blogg hvað...hehe c,')

Ég
Berglind og Sandra Dís
Séð út rauðasand
Andri frændi og Elena
Litla frænka dóttir Örnu og Bærings
Jæja jæja langt síðan síðast...

Hérna sit ég heima hjá systur minni í Safamýrinni í Reykjavík og hef það náðugt. Veðrið úti er gott, sólin skín og vart sést ský á himni hitinn er mikill í skjólinu en á meðan hafgolunnar varir er ekki hægt að kvarta undan of miklum hita.

Ég lagði land undir fót á föstudaginn fyrir viku. Þá var leiðinni haldið til Örlygshafnar við Patreksfjörð gegnt Vatneyri. Þar hélt hin rómaða Kollsvíkurætt ættarmót sitt í Félagsheimilinu Fagrahvammi. Á laugardeginum fórum við í fjallgöngu með hluta úr ættinni frá Brekku á Rauðasandi og yfir í Keflavík þar sem langafi og langamma bjuggu. Þaðan fóru flestir á bílum yfir í Örlygshöfn, en við fjallageiturnar Berglind, Sandra Dís, pabbi og ég, héldum af stað gangandi yfir heiðina milli Keflavíkur og Örlygshafnar þar sem afi minn gekk sjö ára gamall ásamt foreldrum sínum sem voru að bregða búi og flytjast að Efri-Tungu í Örlygshöfn. Ekki leið á löngu þar til pabbi heltist úr lestinni því mamma keyrði niður veginn til Keflavíkur sem er illfær og við hugsuðum með okkur að hún myndi ekki þora að keyra upp eftir aftur svo pabbi ákvað að verða eftir og keyra bílinn upp. Svo við héldum þrjú af stað. Ekki frekari sögum um það nema að við komumst heilu og höldnu til Örlygshafnar að nýju þó svo að sumir væru farnir að óttast um okkur.

Að kvöldi laugardags borðuðu allir saman og að loknu borðhaldi voru skemmtiatriði. Þar tróð upp Bjarkargötu sextettinn sem er skipaður mér og nokkrum öðrum afkomendum Árna og Jóhönnu frá Bjarkargötu 6. Þar sungum við Krumma svaf í klettagjá í þríundarsöngi við mikinn fögnuð viðstaddra, en þakið ætlaði að rifna af húsinu þegar við byrjuðum síðan að rappa lagið. (Katerína og Elma ;D )

Síðan keyrðum við til Reykjavíkur fjölskyldan. Pabbi fór að vinna og ég, mamma og Sara þræddum allar verslanir Reykjavíkur á meðan við biðum eftir erfingjanum. Það var síðan á föstudaginn að við fengum fréttir um það að Arna mágkona og Bæring bróðir hefðu farið á fæðingardeildina klukkan sjö um morguninn. Síðan um þrjúleytið fengum við þær fréttir að þau hefðu eignast stúlkubarn.

Síðan þá hef ég þrædd allar verslanir Reykjavíkur aftur, en á morgun rennur stóri dagurinn upp...þá mun ég fljúga út til Bretlands með vinum mínum og við erum að fara á vegum Ud. Hafstjarnan í útivistar og námsferð til Teesdale. Kannski skelli ég bloggi á þar úti ef ég kemst í Internet samband.

Þangað til næst verið hress, ekkert stress, bless