þriðjudagur, janúar 23, 2007

Minning um Þórey Guðmundsdóttur

Ég lét þessa minningu um Þóreyju inn á minningasíðuna hennar www.fif.fi/torey þegar ár var liðið frá því að hún lést í hræðilegu slysi á Hnífsdalsvegi 19. janúar 2006:

Þá er liðið heilt ár síðan leiðir okkar skildust elsku Þórey...ég trúi því ekki hvað þessi tími hefur verið fljótur að líða. Það hefur ekki liðið sá dagur án þess að ég hugsi um þig, hversu falleg og góð þú hafir verið og ég hef verið að reyna að læra af þér. Eftir að ég byrjaði að vinna í Samkaup hef ég reynt að vera alltaf brosandi eins og þú varst alltaf. Brosandi og svo ánægð, sama hvað gekk á.

Ég man eftir síðasta deginum sem ég hitti þig. Það var á þriðjudeginum fyrir slysið. Ég var á leiðinni í skólann, Þórir hafði fest bílinn sinn í Fjarðarstrætinu og þú varst sest undir stýri og hann var að ýta en það keyrði alveg fullt af fólki framhjá ykkur og stoppaði ekki einu sinni til að hjálpa. Þórir kallaði í mig þegar ég var að koma framhjá ykkur og ég hjálpaði ykkur að ýta. Ég man eftir því þegar við vorum búin að losa bílinn og þið buðuð mér að skutla mér í skólann og þú brostir svo fallega til mín. Ég man alltaf eftir þessu brosi þínu.

Síðan daginn sem slysið varð þá frétti ég niðri í bæ að það hefði orðið slys á leiðinni út í Hnífsdal. Ég vonaði svo heitt og innilega að það hefði ekkert alvarlegt komið fyrir. Síðan þegar ég frétti að það hefði verið mjög alvarlegt þá vonaði ég að það hefði ekki verið neinn sem ég þekkti. Þegar ég var síðan á leiðinni heim var pabbi að koma úr útkallinu og hann tók mig uppí. Á leiðinni sagði hann mér að það hefði orðið banaslys og hann var mjög alvarlegur. Þegar ég kom heim þá fór pabbi að tala við mömmu í eldhúsinu og ég settist við tölvuna og ég fór að hlusta á þau og pabbi sagði að það hafðir verið þú sem hefir dáið, þá fór mamma að gráta. Ég fór að tárast og skildi ekki afhverju stelpan með fallega brosið hafði verið tekin svona fljótt frá okkur.

Eins og ég sagði hérna áður þá hefur ekki liðið sá dagur að ég hugsi ekki um slysið. Í hvert skipti sem ég hugsa um þig dettur mér alltaf í hug þessi lagbútur......when I think of angelsI think of you...Megi minning Þóreyjar Guðmundsdóttur lifa í hjörtum okkar um ókomna framtíð. Þórey, ég mun alltaf muna eftir brosinu þínu, sem þú brostir til mín síðasta skiptið sem ég hitti þig...

Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
- Ísak Pálmason 19/01/07 07:38