fimmtudagur, júní 21, 2007

Meira af mér :D

Mér til mikillar ánægju opnaði ég netumsóknina mína um framhaldsskóla til að sjá hvernig henni liði... og ég fékk þær upplýsingar að ég er kominn inn í Menntaskólann við Sund...


Síðan fór ég í gærkveldi að skoða umhverfið í kringum skólann og komst að því að það tekur 5 mínútur að hjóla þangað, en samt er húsnæðið og umhverfi skólans ekki það flottasta sem ég hef séð :s en húsnæðisvandi er búinn að vera stærsta vandamál skólans enda deilir hann húsnæði með Vogaskóla.



En eins og þeir sem eru vel læsir og eru góðir í lesskilningi sáu, þá hjólaði ég á nýja hjólinu mínu í skólann. Það vildi þannig til að það var gámasala á hjólum í versluninni GÁP á hjólum af gerðinni Mongoose sem eru víst mjög góð hjól. Það kom sér sannarlega vel að hafa hlotið viðurkenningu Ísfirðingafélagsins á skólaslitum Grunnskólans á Ísafirði, enda dugði peningurinn fyrir hjólinu, lási, brettum og auðvitað hjálmi. Hefur þessi gjöf komið sér mjög vel fyrir mig, enda er ég búinn að nota hjólið óspart, fer hjólandi í vinnuna á morgnana, sem tekur mig 4 mínútur og svo er ég alltaf að skreppa eitthvað. Það er líka svo gott við það að búa hérna í Reykjavík það eru hjólastígar út um allt og maður getur hjólað hvert sem er og maður er laus við allar umferðarteppur og allt. Svo auðvitað mengar maður svo miklu minna ef maður notar hjólið heldu en að keyra hvert sem maður fer.






Síðan fór ég á sautjánda júní í Hafnarfjörð á tónleika, svona hefðbundna sautjánda júní tónleika. Þar komu fram nokkrar hljómsveitir og þar á meðal hljómsveit sem er í miklu uppáhaldi hjá mér eftir heimsókn þeirra í Grunnskólann fyrir tveim árum. Þarna er ég auðvitað að tala um stórdúettinn Hundur í óskilum. Ég elska þá. Þeir eru svo skemmtilegir á sviði. Þar voru náttúrulega samankomnir allir Hafnfirðingar og nýhafnfirðingurinn Helena bekkjarsystir mín lét ekki sitt eftir liggja. Það var svo gaman að hitta hana.

Maja og Andrea takk fyrir skemmtileg samtöl, það var gaman að heyra í ykkur :D

Ef þið Ísfirðingar vinir mínir eigið leið í bæinn einhvern tímann þá verðið þið að athuga að ég er oft í stemmingu til að kíkja á kaffó...

En tíundu bekkingar... allavega þið sem eruð búin að fá svar um hvaða skóla þið farið í, í hvaða skóla farið þið? Setjið það í skoðanir :D

En við sjáumst, skjáumst eða jafnvel bara heyrumst...

Ykkar Ísak :D

þriðjudagur, júní 19, 2007

Flóttamaður í borg óttans

Núna er maður svona nokkurn veginn búinn að koma sér fyrir hérna á nýja heimilinu. Það er svolítið skrýtið að búa í Reykjavík, því þegar ég vakna á morgnana finnst mér eins og ég sé í fríi í Reykjavík, fríi frá Ísafirði. Enda hefur það aldrei verið annað á döfinni hjá mér en að koma aftur vestur, vonandi bara sem fyrst og vonandi endanlega. En eins og atvinnuástandi í fjórðungnum er núna er það ekki fýsilegasti kosturinn í stöðunni, því að þó svo að fyrir rúmum ellefu hundruð árum hafi öll vötn legið til Dýrafjarðar, svo ég leyfi mér að vitna í Véstein Vésteinsson. Það er svo sannarlega sárt að sjá þetta gerast. En vonandi er ekki of seint að grípa í taumana þó svo að flest bendi til þess.
Það kom mér nú samt mjög mikið á óvart hvað það var léttara að kveðja bæinn því ég hafði ímyndað mér að það ætti eftir að verða óbærilegt og ég ætti eftir að lifa margar andvökunætur, grátandi yfir hlutkesti mínu og fjölskyldu minnar út í lífið. En ég leit á þetta sem tækifæri til að kynnast nýju fólki og læra eitthvað nýtt. Það var samt átakanlegt þegar ég fór í síðasta skiptið göngutúr í bæinn til að kveðja fólkið sem fyrir bar, og fara í síðasta skiptið, allavega í bili og stimpla mig út úr samkaup.
Leiðin suður gekk þó ekki átakalaust fyrir sig. Það var eins og landvættir okkar Vestfirðinga hefðu ekki vilja missa þetta fólk sem var að flytjast hreppaflutningum úr fjórðungnum. Á niður leið niður af Þorskafjarðarheiði stöðvuðu þeir för okkar, það sprakk dekk. Það var því svolítið táknrænt að það skildi springa á nákvæmlega þessum stað enda ekki langt í Gilsfjörðinn sem markar skil á milli Vesturlands og Vestfjarða og vorum við því alveg að renna burt hinsta sinn frá kjálkanum sem við öll unnum svo mikið. Enda hefðum við fyrir tíu árum, vel stæð fjölskyldan og fyrir vinnurnar á heimilinu í góðum vinnum, ekki trúað því að á þessum degi værum við að flytjast burt.
Það var svo daginn eftir að ég kom til borgarinnar alkominn að ég hóf störf hjá stórfyrirtæki, þangað sem að hver landsmaður að meðaltali leggur leið sína tvisvar í mánuði. Það er að segja í verslunina þar sem að Íslendingum finnst skemmtilegast að versla. Þar hóf ég störf í matvöru og á kassa, en staldraði stutt við í þessum deildum. Enda eftir að hafa sýnt hvað í mér býr og kunnáttu mína á verslunum fékk ég fljótt stöðuhækkun og er núna orðin Allýin í Hagkaup (Samkaupsgrín), þ.e.a.s. í grænmetinu. Svo alltaf á kvöldin þarf ég að loka salatbarnum og þrífa hann, sem er alveg ágætt, enda er þetta vel launað. Ég vinn á tólf tíma vöktum frá klukkan 8 til rúmlega 20, en samt er ég eiginlega búinn að prófa flestar deildir matvörunnar í Skeifunni. Þ.e. ég er eiginlega svokölluð deildahóra, eða er í því að leysa af í öðrum deildum ef þarf.
Fyrir utan vinnuna hef ég ekki gert neitt mikið nema aðallega sofa, enda tekur virkilega á að vinna á tólf tíma vöktum næstum alla daga.

En Elma og Borghild þið verðið að fyrirgefa að ég skildi svíkja ykkur á þjóðhátíðardaginn sjálfan, en síminn minn er í viðgerð og ég er búinn að vera farsímalaus frá því að ég kom. En vonandi getum við bara hist einhvern tíman seinna á kaffihúsi. En þetta er kannski engin afsökun því að ég hefði náttúrulega getað reynt að ná sambandi við ykkur með öðrum hætti. En þið verðið að fyrirgefa.
Atli í féló, hérna eru smá skilaboð til þín. Þú verður að fyrirgefa að ég kom ekki að kveðja þig, verða að hringja í ykkur við tækifæri í frístund. Það var þannig að ég var búinn að vera að bíða eftir ykkur og þegar þeir komu þá fórst þú strax eitthvað svo ég ákvað að kveðja bara hina því ég þurfti að fara í vinnu.
En krakkar þið vitið ekki hvað ég sakna ykkar mikið. Ég vænti þess að fá fullt af skoðunum við þessu bloggi og svör við þessum spurningum:
Eru fjöllin enn á sínum stað?
Bragðast sælurnar jafn vel og venjulega?
Bakar gamla bakaríið ennþá Ísafjarðar-kringlur?

Vonandi á ég eftir að vera duglegur við að blogga á þessari “nýju” síðu minni og vonandi haldið þið í vonina um það og haldi áfram að heimsækja hana. Þangað til næst...

Ykkar Ísak
-flóttamaður og deildahóra